Öruggur sigur Vals í fyrri leiknum

Ljósmynd úr leik liðanna í dag.
Ljósmynd úr leik liðanna í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur er með átta marka forskot að loknum fyrri leiknum gegn Potaissa Turda frá Rúmeníu í undanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik. Valur hafði betur 30:22 á Hlíðarenda í kvöld. 

Síðari leikur liðanna fer fram í Rúmeníu á sunnudaginn eftir viku, 30. apríl. Liðið sem hefur betur samanlagt leikur til úrslita í keppninni. 

Sigur Vals var nokkuð öruggur og þegar leið á seinni hálfleik var einungis spurning um hversu miklu forskoti Valur næði fyrir seinni leikinn ytra. Valur hafði yfir 12:8 að loknum fyrri hálfleik. 

Valur náði strax forskoti snemma leiks en þá var vörnin öflug og Hlynur Morthens byrjaði vel í markinu. Fljótt náði Valur þriggja marka forskoti og munurinn var fjögur mörk að loknum fyrri hálfleik eins og áður segir. 

Eftir fjörtíu mínútna leik munaði tveimur mörkum á liðunum en Valsmenn voru mun öflugri á lokakafla leiksins og náðu þá að byggja upp gott forskot fyrir síðari leikinn. Forskot sem ætti að duga til að komast í úrslit keppninnar ef mið er tekið af frammistöðu Potaissa í þessum leik. En mögulega gæti þetta lið átt mikið inni miðað við frammistöðuna í dag. 

Rúmenarnir voru frekar þungir sumir hverjir en fyrst og fremst þegar kom að því að keyra til í vörnina. Þeir áttu það til að vera klaufskir í sókninni. Þegar svo bar undir þá fengu Valsmenn góð tækifæri til að ná hraðaupphlaupum og nýttu það ágætlega. Valsmenn hefðu þó mögulega getað unnið leikinn stærra en þrjú vítaköst nýttust ekki að þessu sinni auk þess sem nokkrar efnilegar sóknir runnu út í sandinn í fyrri hálfleik. En eins og oft áður í mikilvægum leikjum í vetur þá var vörnin sterk hjá Val í dag og Valsmenn voru duglegir að ganga út í leikmenn Potaissa og trufla taktinn í sóknum gestanna. 

Rétthenta skyttan Josip Grgic var ekki kominn á blað hjá Val eftir 46 mínútna leik. Á 47. mínútu skoraði hann sitt fyrsta mark í leiknum en þá tók hann líka hressilega við sér og skoraði 8 mörk áður en yfir lauk. Var hann markahæstur Vals en Vignir Stefánsson og Sveinn Aron Sveinsson voru mjög drjúgir í hornunum með 13mörk samtals. Ólafur Ægi Ólafsson var mjög klókur í vörn og sókn og bræðurnir Ýmir og Orri Gíslasynir voru sterkir í miðri vörninni. Hlynur varði 14 skot á þeim liðlega 45 mínútum sem hann lék. 

Valur 30:22 Potaissa Turda opna loka
60. mín. Valur tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert