Stöngin út í orðsins fyllstu merkingu

Ernir Hrafn Arnarson skoraði fjögur mörk í tapi Aftureldingar gegn …
Ernir Hrafn Arnarson skoraði fjögur mörk í tapi Aftureldingar gegn FH í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við komum ekki nógu sterkir inn í leikinn og náðum ekki takti í sóknarleikinn. Við fórum svo illa með mörg góð færi og þetta var stöngin út í orðsins fyllstu merkingu þar sem við skutum afar oft í tréverkið í þessum leik,“ sagði Ernir Hrafn Arnarson, leikmaður Aftureldingar, í samtali við mbl.is eftir 28:25 tap liðsins gegn FH í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Olísdeildar karla í handbolta að Varmá í dag.

„Við komum sterkari inni í seinni hálfleikinn, en aftur var það svo slæm nýting á dauðafærum sem varð okkur að falli. Við klikkuðum á dauðafærum þegar við hefðum getað minnkað muninn enn frekar og því fór sem fór. Við náðum að skapa okkur góð færi, en náðum hins vegar því miður ekki að nýta þau,“ sagði Ernir Hrafn um spilamennsku Aftureldingar í seinni hálfleik.

„Við höfum enn trú á því að við getum farið áfram í þessu einvígi. Við tökum bara einn leik fyrir í einu og förum í næsta leik með það að markmiði að fara með sigur í hólmi og halda okkur á lífi í einvíginu. Við getum klárlega unnið FH á góðum degi og við þurfum að spila lengur á fullri getu en við gerðum í dag til þess að hafa betur í næsta leik,“ sagði Ernir Hrafn um framhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert