„Takk fyrir stuðninginn“

Anton Rúnarsson og Sveinn Aron Sveinsson
Anton Rúnarsson og Sveinn Aron Sveinsson mbl.is/Árni Sæberg

„Mér fannst við spila flottan varnarleik nánast allan leikinn í og vera skynsamir í sókninni,“ sagði Anton Rúnarsson, leikstjórnandi Vals, í samtali við mbl.is á Hlíðarenda þar sem Valur vann Potaissa frá Rúmeníu 30:22 í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu í handbolta. 

„Það er mikið undir og menn voru klárir í slaginn í dag. Þegar við náum upp þessari vörn og markvörslu þá er erfitt að eiga við okkur. Svo fengum við frábæran stuðning. Ég ætla ekki bara að hrósa stuðningsmönnum Vals heldur einnig öðrum sem mættu. Takk fyrir stuðninginn,“ sagði Anton en stuðningsmannakjarninn var mjög líflegur á áhorfendapöllunum. 

Anton sagði ekki hafa verið auðvelt að kortleggja lið Potaissa fyrir fram. „Miðað við það sem ég hafði séð þá spilaði liðið svipað og ég bjóst við. Þeir eru stórir og sterkir en einnig fljótir. Þeir keyra mikið á vörnina og hraðinn er til staðar í þeirra leik. En það er alltaf erfitt að meta lið út frá einum til tveimur leikjum sem maður sér á videó,“ sagði Anton sem skoraði 2 mörk fyrir Val.

Anton Rúnarsson
Anton Rúnarsson mbl.is/Kristinn Magnúsosn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert