„Stál í stál“

Sigurbjörg Jóhannsdóttir fer fram hjá Sigrúnu Jóhannsdóttur.
Sigurbjörg Jóhannsdóttir fer fram hjá Sigrúnu Jóhannsdóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurbjörg Jóhannsdóttir, leikstjórnandi Fram, skoraði geysilega mikilvægt mark í kvöld þegar Fram sló Hauka út úr undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta í Safamýri. Fram hafði betur 31:28 eftir tvíframlengdan leik og samanlagt 3:0 í rimmunni. 

Sigurbjörg jafnaði fyrir Fram þegar fimm sekúndur voru eftir af fyrri framlengingunni og knúði þannig fram aðra framlengingu þar sem Framarar voru mun sterkari. Hún var hógvær varðandi markið mikilvæga.

„Ég man varla hvernig þetta var. Maður hugsar lítið í svona stöðu og verður bara að keyra á vörnina. Haukarnir hafa kannski frekar gert ráð fyrir því að ég myndi gefa boltann eins og ég hafði verið að gera í leiknum en ég sá bara markið,“ sagði Sigurbjörg en Framarar voru einnig í erfiðri stöðu í venjulegum leiktíma. Haukar náðu um tíma sjö marka forskoti í venjulegum leiktíma. 

„Við vorum í mjög lélegri stöðu eftir fyrri hálfleik í venjulegum leiktíma en mér fannst við bara eiga svo ógeðslega mikið inni. Ég vissi að við hefðum getuna til að ná þeim svo framarlega sem við færum að spila almennilega. Mér fannst við hafa næga orku og fannst þær vera þreyttari þegar á leið. Við mjötluðum niður muninn hægt og rólega. Þegar komið var í framlengingu þá vissi ég að við myndum klára dæmið því viljinn var okkar megin.“

Þrátt fyrir að Fram hafi unnið 3:0 þá voru allir leikirnir mjög jafnir og spennandi. „Þetta eru tvö sterk lið og leikirnir stál í stál. Við erum búin að mætast ofboðslega oft. Við spiluðum við þær þrisvar í deildinni, einu sinni í bikarnum og þetta er þriðji leikurinn í úrslitakeppninni. Bæði lið vita nákvæmlega hvað andstæðingarnir vilja gera. Þetta stendur tæpt,“ sagði Sigurbjörg Jóhannsdóttir í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert