Stjarnan svaraði fyrir sig

Anna Úrsúla situr á gólfinu með boltann en Rakel Dögg …
Anna Úrsúla situr á gólfinu með boltann en Rakel Dögg Bragadóttir reynir að ná til hans. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan vann Gróttu, 19:14, í þriðju viðureign liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik í TM-höllinni í Garðabæ í kvöld og hefur þar með aftur náð einum vinningi í rimmu liðanna en Grótta hefur tvo. Næsti leikur liðanna verður á fimmtudagskvöldið á heimavelli Gróttu, Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi.

Stjarnan var með yfirhöndina í leiknum í kvöld frá upphafi til enda. Staðan í hálfleik var 12:7. Gróttuliðið náði að minnka forskotið í tvö mörk í síðari hálfleik en komst ekki nær þrátt fyrir að fá möguleika til þess. Varnarleikur Stjörnunnar var afar góður og ljóst frá fyrstu mínútu að leikmenn ætluðu að selja sig dýrt. Gróttuliðið vaknaði hins vegar ekki fyrr en í síðari hálfleik. Það dugði ekki að þessu sinni.

Stjörnuliðið kom mikið betur búið til þessa leiks og tók völdin, jafnt í vörn sem sókn frá fyrstu mínútu. Ljóst var að uppákoman í aðdraganda leiksins, og sú staðreynd að liðið varð að vinna, hleypti krafti í Stjörnuna. Vörnin vara afar góð og Heiða Ingólfsdóttir með á nótunum frá fyrstu mínútu. Að því undanskildu að Lovísa Thompson jafnaði metin, 1:1, var Stjarnan með yfirburði í fyrri hálfleik. Eftir um 20 mínútur var forskotið komið upp í sex mörk, 9:3. Aðeins lifnaði yfir Gróttuliðinu undir lok hálfleiksins og því tókst að minnka muninn í fjögur mörk, 11:7. Nær komst það ekki og Stjarnan gekk með fimm marka forskot í farteskinu til búningsherbergis í hálfleik, 12:7.

Gróttuliðið lagði ekki árar í bát í hálfleiknum. Öðru nær. Leikmenn komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik. Allt annað var að sjá til leikmanna sem voru fullir af baráttu og eldmóði. Eftir tíu mínútur í síðari hálfleik var munurinn orðinn þrjú mörk, 14:11, og farið að fara um Stjörnufólk.  Þrátt fyrir að fara illa að ráði sínu um skeið tókst Gróttuliðinu að minnka muninn í tvö mörk, 16:14.  Stjarnan gaf hins vegar ekkert eftir. Varnarleikurinn var góður og mikið mæddi á fáum leikmönnum Gróttu. Þreyta gerði vart við sig og það var eins leikurinn rynni þeim úr greipum fyrir vikið. Stjarnan gaf ekkert eftir þótt liðinu gengi illa að skora í síðari hálfleik.  Liðið skoraði tvö síðustu mörk leiksins og tryggði sér fimm marka sigur, 19:14.

Ástæða er til þess að minnast á umgjörð leiksins. Hún var til mikillar fyrirmyndar hjá Stjörnunni. Í ljósi atburða síðustu daga, vegna málsins um leikskýrsluna sem gleymdist að setja nafn eins leikmanns Stjörnunnar á, sem tók þátt í annarri viðureign liðanna, mátti alveg eins búast við að leiðindi gætu skapast. Forráðamenn Stjörnunnar sáu hins vegar til þess að svo var ekki. Stuðningsmenn beggja liða tóku þátt í leiknum af heilum hug og létu leiðindi lönd og leið. 

Stjarnan 19:14 Grótta opna loka
60. mín. Hanna G. Stefánsdóttir (Stjarnan) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert