Enginn ætlar sér að vera lélegur

Andri Þór Helgason, hornamaður Fram, einn gegn Sigurði Ingiberg Ólafssyni, …
Andri Þór Helgason, hornamaður Fram, einn gegn Sigurði Ingiberg Ólafssyni, markverði Vals, í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Að vera með 23% sóknarnýtingu er ekki boðlegt,” sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, eftir að lið hans var kjördregið af Valsmönnum í annarri viðureign liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik í Valshöllinni í kvöld. Lokatölur, 27:15. Valur hefur þar með tvo vinninga en Fram engan í rimmunni.

„Valsmenn léku hörkuvörn og Sigurður var frábær í markinu en engu að síður þá var leikur okkar óviðundandi,” sagði Guðmundur Helgi.  „Okkur var fyrirmunað að skora; úr vítaköstum, af línunni, úr hornum eða með langskotum.  Ef skotin voru varin þá fór boltinn framhjá. Svona leik getum við alls ekki unnið.”

Guðmundur Helgi sagði Fram-liðið hafa brennt af sjö opnum færum auk vítakasta í fyrri hálfleik. „Með réttu hefðum við átt að vera með þriggja til fjögurra marka forskot eftir fyrri hálfleik í stað þess að vera tveimur mörkum undir.  Það sló mína menn út laginu og fyrir vikið fóru þeir að reyna eitt og annað í síðari hálfleik sem þeir réðu ekki við.”

Guðmundur  Helgi segir að eftir tvo tapleiki í þessari rimmu verði menn að stokka spilin upp á nýtt, kveikja neistann og finna hungrið á nýjan leik.  „Ég veit að strákarnir hafa ekki fengið nóg og ég er heldur ekki orðinn saddur af þessu keppnistímabili.  Það ætlar sér enginn að vera lélegur í leikjum.

Spennustigið er of hátt hjá okkur. Menn eru komnir aðeins framúr sér. Við erum komnir á stór svið sem þarf að læra inn á,” sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, sem hefur nú viku til þess að koma sínum mönnum á skrið á nýjan leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert