Við erum varnarlið

Alexander Örn Júlíusson skoraði nokkur góð mörk fyrir Val í …
Alexander Örn Júlíusson skoraði nokkur góð mörk fyrir Val í kvöld með sannkölluðum þrumuskotum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum varnarlið og á vörninni vinnum við leikina,” sagði Óskar Bjarni Óskarsson, annar þjálfari Vals, eftir 12 marka sigur á Fram í annarri viðureign liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins karla í handknattleik í Valshöllinni í kvöld, 27:15.

„Í sóknarleiknum gerðum við lengst af ekkert meira en við þurftum, ekki síst í fyrri hálfleik þegar flæðið í leiknum var ekkert got. Varnarleikurinn var hinsvegar alveg stórkostlegur og Sigurður Ingiberg frábær í markinu,” sagði Óskar Bjarni og viðurkenndi að hafa verið órólegur í hálfleik veranda aðeins tveimur mörkum yfir, 9:7.

„Framarar hefðu alveg geta tekið okkur í síðari hálfleik en eftir að ljóst var að varnarleikurinn var eins góður í síðari hálfleik og Sigurður hélt uppteknum hætti í markinu þá varð leikurinn auðveldari. Fleiri skiluðu sínu í sóknarleiknum en áður, til dæmis Alexander og Anton. Munurinn jókst smátt og smátt og þá varð róðurinn þungur hjá leikmönnum Fram.  Það skal hinsvegar enginn afskrifa Framarana ennþá í þessu einvígi. Maður hefur nokkrum sinnum afskrifað þá á leiktíðinni en alltaf tekst þeim að rísa upp á nýjan leik. Framarar hafa ótal líf og ljóst að þeir munu gera allt til þess að svara fyrir sig í næsta leik eftir viku,” sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals sem heldur með sína menn til Rúmeníu snemma í fyrramálið þar sem  Valur mætir Turda öðru sinni í undanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert