Litlu atriðin skipta miklu máli

Kári Garðarsson þjálfari Gróttu.
Kári Garðarsson þjálfari Gróttu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, var að vonum svekktur þegar hann var gripinn tali eftir að Grótta tapaði með eins marks mun, 21:20, fyrir Stjörnunni í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik. Liðin mætast í oddaleik í Garðabæ á sunnudag.

„Það er alltaf svekkjandi að tapa. Ég veit ekki alveg hvað skal segja, enda stutt liðið frá leik. Mér fannst muna litlu í þessu,“ sagði Kári við mbl.is eftir leikinn á Seltjarnarnesi.

Grótta skoraði ekki mark í tæpar átta mínútur undir lok leiksins. Stjarnan náði þriggja marka forskoti á þeim tíma og tryggði sér að lokum eins marks sigur. „Þar förum við með mjög góð færi. Það má ekki gleyma að það tapast líklega á því að við erum að fara með vítakast, dauðafæri á línu og svona. Í jöfnum leik fara litlu atriðin að telja rosalega mikið,“ sagði Kári.

„Við þurfum að hafa nýtinguna í skotum eins góða og hægt er og fækka tæknimistökum,“ sagði Kári þegar hann var spurður að því hvað Grótta gæti bætt fyrir oddaleikinn. „Til að ná að vinna þurfum við að skora einu marki meira og þetta snýst um þessi litlu atriði í jöfnu leikjunum.“

Kári hættir þjálfun Gróttu að loknu yfirstandandi keppnistímabili og kveðst ekki hafa áhyggjur af því að leikurinn á sunnudag verði síðasti leikur hans með liðið. „Ég hef ekki áhyggjur. Ég vona innilega að ég fái að fara í úrslit. Þær eiga það skilið þessar stúlkur eftir frammistöðuna seinni hluta vetrar og í úrslitakeppninni og ég væri alveg til í að taka þátt í því með þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert