„Skýrslutapið“ kveikti í Stjörnunni

Rakel Dögg skoraði sex mörk í dag.
Rakel Dögg skoraði sex mörk í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Rakel Dögg Bragadóttir, leikmaður Stjörnunnar, fór fyrir sínu liði þegar Garðbæingar sigruðu Gróttu, 21:20, í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik. Staðan í einvígi liðanna er 2:2 en sigurvegarinn í oddaleik mætir Fram í úrslitum.

„Það sést á tölunum, 21:20, að þetta er varnarsigur. Tvær sterkar varnir og báðir markmenn vörðu mjög vel í dag. Þegar það er komið í fjórða leik og þessi lið eru búin að spila ég veit ekki hvað marga leiki síðustu ár þá snýst þetta um baráttu,“ sagði Rakel við mbl.is eftir leikinn á Seltjarnarnesi.

„Bæði lið þekkja hvort annað inn og út og þetta veltur finnst mér að lokum mest á baráttunni. Við náðum að stíga upp og ég er gríðarlega stolt af síðustu 15 mínútunum,“ bætti Rakel við en Stjarnan náði þriggja marka forskoti þegar nokkrar mínútur voru eftir og það skóp sigur liðsins.

Spurð um leikinn sem Stjarnan tapaði 10:0 vegna mistaka á leikskýrslu sagðist Rakel telja að það hafi kveikt í Garðbæingum. „Ég hugsa að allir viti að það hafi aðeins kveikt í okkur. Við tókum þá ákvörðun að hugsa ekkert um þetta, hugsa bara um leikin. Allir geta lagt saman tvo og tvo og vita að við vorum reiðar og ákveðnar. Við sýndum það svo sannarlega í síðasta leik og nú þarf að halda áfram,“ sagði Rakel sem er farin að huga að oddaleiknum:

„Nú er bara oddaleikur og það er ógeðslega gaman. Það er frábært að fara í Garðabæinn á sunnudaginn og úrslitakeppnin er búin að vera skemmtileg og þessir leikir, þó það sé ekki mikið skorað í þeim. Ég vil fá að sjá stútfulla TM-höll á sunnudag,“ sagði Rakel en oddaleikurinn hefst klukkan 16.00 á sunnudaginn í Garðabænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert