Er ekki fram úr hófi bjartsýnn

Pavel Razvan, leikmaður Potaissa Turda, freistar þess að skora hjá …
Pavel Razvan, leikmaður Potaissa Turda, freistar þess að skora hjá Sigurði Ingiberg Ólafssyni, markverði Vals, í fyrri viðureign Vals og Turda fyrir viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við eigum við ramman reip að draga verandi átta mörkum undir eftir fyrri leikinn. Ég er þar af leiðandi ekkert fram úr hófi bjartsýnn fyrir okkar hönd,“ sagði Nicolae Horatiu Gal, þjálfari Potaissa Turda, í samtali við mbl.is síðdegis á föstudaginn, rétt áður en hann blés til æfingar með lærisveinum sínum.

„Því miður höfum við ekki okkar sterkasta lið í þessum leik vegna meiðsla. Sú staðreynd dregur úr möguleikum okkar í leiknum við Val,“ sagði Gal sem reyndi flest til þess að gera sem minnst úr möguleikum sinna manna í samtali við mbl.is. Hann viðurkenndi þó að Turda-liðið hefði verið nokkuð frá sínu besta í tapleiknum í Valshöllinni fyrir viku. Frammistaðan hafi valdið sér vonbrigðum og lið hans tapaði með átta marka mun, 30:22.

„Við eigum að gera betur og munum leika betur á okkar heimavelli. Stuðningur okkar fólks getur ýtt okkur yfir erfiða hjalla í leiknum,“ sagði Gal sem var frekar stuttur í spuna.

„Valsliðið er skipað ungum leikmönnum sem leika hraðan og nútímalegan handknattleik sem erfitt er að eiga við,“ sagði Gal að lokum.

mbl.is verður með beina textalýsingu frá síðari viðureign Potaissa Turda og Vals sem fram fer í Turda í dag. Flautað verður til leiks klukkan 15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert