Sækjum til sigurs

Orri Freyr Gíslason, fyrirliði Vals, t.h. ásamt Hlyni Morthens, Ólafi …
Orri Freyr Gíslason, fyrirliði Vals, t.h. ásamt Hlyni Morthens, Ólafi Ægi Ólafssyni og fleiri samherjum fyrir utan íþróttahúsið í Turda að lokinni æfingu. Alvaran tekur við hjá þeim í dag þegar síðari undanúrslitaleikur Áskorendakeppni Evrópu fer fram í Turda. mbl.is/Ívar

„Ef við förum ekki með réttu hugarfari inn í leikinn, það er ef við ætlum ekki að sækja til sigurs þá verður leikurinn okkur hættulegur,“ sagði Orri Freyr Gíslason, hinn reyndi leikmaður Vals, í samtali við mbl.is í Turda spurður um síðari viðureignina við Potaissa Turda í undanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik sem fram fer í íþróttahúsinu í Turda í Rúmeníu í dag og hefst klukkan 15.

„Við höfum farið vel yfir væntanlegan leik frá öllum hliðum og af okkar hálfu kemur ekkert annað til greina en að sækja til sigurs í stað þess að verja þá stöðu sem við erum í eftir fyrri viðureignina,“ sagði Orri enn fremur en Valur vann fyrri leikinn, 30:22, á heimavelli fyrir viku.

„Á keppnistímabilinu höfum við stundum farið flatt í leikjum gegn andstæðingum sem við eigum að vinna vegna þess að við höfum ekki verið nógu miklir töffarar. Þess vegna held að got sé að ná núllstillingu og nú sé bara nýr leikur þar sem staðan er jöfn.“

Orri Freyr segir að sú tilhugsun að góður möguleiki sé á að liðið leiki til úrslita í Evrópukeppni eftir tvær til þrjár vikur sé góð. „Þess vegna verðum við að leika eins og menn gegn Turda. Það væri hrikalega gaman að fá að glíma við Sporting Lissabon í úrslitaleikjum. Það er alvörulið. Með því er ég ekki að gera lítið úr Turda-liðinu sem við eigum að mæta að þessu sinni. Turda er með hörkulið þótt okkur hafi vegnað vel gegn þeim í Valshöllinni þá gerast hlutirnir ekkert sjálfkrafa hjá okkur í síðari viðureigninni. Við verðum að hafa fyrir sigri en við stefnum á að vinna aftur,“ sagði Orri Freyr Gíslason, hinn reyndi línumaður og varnarjaxl Valsliðsins.

mbl.is verður með beina texta­lýs­ingu frá síðari viður­eign Potaissa Turda og Vals sem fram fer í Turda í dag. Flautað verður til leiks klukk­an 15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert