Tékkneskir dómarar og löngu uppselt

Leikmenn Vals og þjálfarar leggja á ráðin eftir æfingu í …
Leikmenn Vals og þjálfarar leggja á ráðin eftir æfingu í Turda áður en haldið var á hótelið í bænum til frekari skrafs og ráðagerða. mbl.is/Ívar

Dómarar leiksins Potaissa Turda og Vals í undanúrslitum  Áskorendakeppni karla í handknattleik í dag eru Tékkar, Lukas Frieser og Radoslav Kavolic. Þeir eru sagðir vera þriðja besta dómarapar Tékka um þessar mundir og hafa orðið talsverða reynslu af því að dæma alþjóðlega kappleiki. Eftirlitsmaður Handknattleikssambands Evrópu er Kýpurbúi, Kyriakos Kaplanis.

Uppselt var á leikinn síðasta mánudag. Eftir því sem næst verður komist verða nærri 800 áhorfendur á leiknum en miðað við fjölda sæta í íþróttahúsinu í Turda er ljóst að einhverjir af þessum 800 munu standa upp á endann og fylgjast með leiknum því sætin í íþróttahúsinu ná ekki þeim fjölda.

Til stendur að hefja byggingu á nýju íþróttahúsi í Turda innan ekki svo langs tíma. Það á að rúma 3.000 áhorfendur í sæti og hýsa handknattleik, blak og körfuknattleik en talsverður áhugi er fyrir þessum greinum í borginni. Handknattleiksliðið var stofnað árið 2008 og hefur verið í efstu deild frá 2010 með stigvaxandi árangri ár frá ári, eftir því sem heimamenn segja. Nú er Turda-liðið í öðru sæti rúmensku úrvalsdeildarinnar og hefur einnig tryggt sér sæti í úrslitahelgi rúmensku bikarkeppninnar, „final four”, sem fram fer eftir hálfan mánuð.

mbl.is verður með beina texta­lýs­ingu frá síðari viður­eign Potaissa Turda og Vals sem fram fer í Turda í dag. Flautað verður til leiks klukk­an 15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert