„Ekki gaman að eiga inni eftir svona leik“

Hanna Guðrún Stefánsdóttir, Stjörnunni, tekur vítakast gegn Guðrúnu Ósk Maríasdóttur.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir, Stjörnunni, tekur vítakast gegn Guðrúnu Ósk Maríasdóttur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Guðrún Ósk Maríasdóttir stóð fyrir sínu í marki Fram og varði 17 skot en varð að sætta sig við tap 23:19 fyrir Stjörnunni í þriðja úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik í Garðabæ í dag. 

„Við hefðum þurft að koma sterkari inn aðeins fyrr í leiknum. Við náðum ekki að klára of marga hluti eftir skipulagi,“ sagði Guðrún en Stjarnan komst í 9:2 í leiknum með góðri frammistöðu á upphafsmínútunum. „En þá var nánast allur leikurinn eftir.“

Þótt Fram hafi einungis fengið á sig 19 mörk í leiknum þá þótti Guðrúnu ýmislegt vanta upp á leik liðsins hvort sem það var í vörn eða sókn. 

„Okkur tókst hvorki að spila vel í vörn né sókn alla vega ekki eins og við lögðum upp með. Jafnvel þótt við skyldum fá fá mörk á okkur. Við eigum inni og það er ekki gaman að eiga eftir inni eftir svona mikilvægan leik. Það er ekki góð tilfinning því maður vill skilja allt eftir inni á vellinum,“ sagði Guðrún í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert