Þrenna enn möguleiki

Helena Rut Örvarsdóttir og Hanna Guðrún Stefánsdóttir fagna sigrinum um …
Helena Rut Örvarsdóttir og Hanna Guðrún Stefánsdóttir fagna sigrinum um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Deildar- og bikarmeistarar Stjörnunnar hafa ekki sagt sitt síðasta orð í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik. Fram gat orðið meistari með sigri í Garðabæ í gær en Stjarnan vann hins vegar öruggan sigur 23:19 og minnkaði þar með muninn í 2:1 í rimmunni.

Stjarnan spilaði 5-1 vörn þar sem Hanna G. Stefánsdóttir lokaði á vinstri vænginn hjá Fram. Ragnheiður Júlíusdóttir átti erfitt uppdráttar í skyttustöðunni og hornamennirnir vinstra megin, Rebekka Skúladóttir og Marthe Sördal, fengu enga þjónustu. Undir þessum kringumstæðum hefði Hildur Þorgeirsdóttir þurft að ógna verulega hægra megin en var allt of óeigingjörn og skaut sárasjaldan á markið. Sigurbjörg Jóhannsdóttir var líflegust Framkvenna ásamt Steinunni Björnsdóttur og þær lögðu mest af mörkum í sókninni hjá Fram. Guðrún Ósk Maríasdóttir verður ekki sökuð um tapið en hún varði 17 skot í marki Fram enda telst ekki slæmt að fá á sig 23 mörk.

Hanna átti ágætan leik hjá Stjörnunni og fleiri stóðu sig vel í vörninni enda er virkilega gott að fá á sig færri en 20 mörk í jafn mikilvægum leik og þessum. Hafdís Renötudóttir varði vel í markinu á upphafskaflanum þegar Stjarnan lagði grunn að sigrinum og náði sjö marka forskoti, 9:2. Síðar í leiknum var forskotið níu mörk um tíma og Fram náði ekki að saxa forskotið meira niður en í fjögur mörk þegar um fimm mínútur voru eftir.

Nánar er fjallað um úrslitakeppni kvenna í handknattleik í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert