„Sorglegt fyrir handboltann“

Gunnar Gunnarsson þjálfari Víkings, til hægri, ásamt Ægi Hrafni Jónssyni.
Gunnar Gunnarsson þjálfari Víkings, til hægri, ásamt Ægi Hrafni Jónssyni. mbl

Það varð ljóst í kvöld að Víkingur spilar á ný í úr­vals­deild karla í hand­knatt­leik á næsta keppn­is­tíma­bili þegar HSÍ lauk úr­vinnslu á þátt­töku­til­kynn­ing­um fyr­ir næstu leiktíð.

KR hefði að óbreyttu átt að fá sæti í deild­inni en þar sem fé­lagið mun ekki tefla fram meist­ara­flokki á næsta tíma­bili fær Vík­ing­ur sætið sem efsta lið 1. deild­ar 2016-17 af þeim liðum sem ekki höfðu tryggt sér úr­vals­deild­ar­sæti. Vík­ing­ur endaði í þriðja sæti á eft­ir Fjölni og ÍR sem bæði fara upp.

„Mín fyrstu viðbrögð eru þau að þetta er sorglegt fyrir handboltann að félag eins og KR, sem telur sig vera eitt það stærsta á landinu, hafi ekki tíma og pláss fyrir þjóðaríþróttina. Mér þykir þetta mjög leiðinlegt fyrir hönd Gústa og strákana hans í KR. Þeir voru búnir að búa til mjög flotta umgjörð. Það er mjög miður fyrir handboltann að svona stór félög telji sig ekki hafa pláss fyrir handboltann,“ sagði Gunnar Gunnarsson þjálfari Víkings við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um tíðindi dagsins.

Verður gott tækifæri fyrir ungu strákana

„Við tókum fund um helgina og ræddum um það ef þessi staða kæmi upp. Við erum tilbúnir í þetta verkefni þó svo að liðið okkar sé mjög ungt. Við vorum í úrslitaleik í 2. flokknum þar sem við töpuðum fyrir Fram og uppistaðan í meistaraflokknum eru leikmenn 2. flokks. Við vorum oftar en ekki með yngri lið en U-liðin sem við mættum í 1. deildinni í vetur. Við þurfum að átta okkur á stöðunni og sjá hvað við getum gert. Það liggur ljóst fyrir að við verðum að styrkja liðið.

Ég lít svo á að þetta verður gott tækifæri fyrir þessa ungu stráka að fá tækifæri í Olís-deildinni og maður hefur séð í þeirri deild í vetur að margir ungir strákar hafa gert það gott þegar þeir fá tækifærið. Við þurfum að finna einhverja reynslubolta þó svo að við séum með nokkra. Við þurfum meiri þyngd í liðið og við munum vinna í þeim málum,“ sagði Gunnar við mbl.is.

„Mér finnst líka ansi dapurt það sem átt hefur sér stað á Akureyri. Þetta er ekki eitthvað sem handboltinn þarf á að halda. En það jákvæða í þessu er að við erum komnir með þrjár deildir og það er jákvæð þróun,“ sagði Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert