„Fékk góða tilfinningu strax í gær“

Halldór Jóhann fer yfir sviðið í kvöld.
Halldór Jóhann fer yfir sviðið í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halldór Jóhann Sigfússon má vera ánægður með sína menn í FH sem í kvöld knúðu fram oddaleik um Íslandsmeistaratitil karla í handknattleik með 30:25 sigri á Val í fjórða úrslitaleik liðanna á Hlíðarenda. 

FH náði strax frumkvæðinu í leiknum og að loknum fyrri hálfleik var staðan 19:12. „Ég fékk góða tilfinningu fyrir þessum degi strax í gær þegar ég hitti strákana. Við vorum auðvitað frábærir í vörninni allan leikinn. Það var virkilega sætt að ná sterkum varnarleik og við sýndum frumkvæði sem við höfum beðið eftir í þessu einvígi. Frumkvæðið hefur svolítið vantað,“ sagði Halldór Jóhann þegar mbl.is tók hann tali á Hlíðarenda í kvöld. 

Í síðari hálfleik hresstust Valsmenn og minnkuðu muninn mest niður í þrjú mörk en komust ekki lengra. „Við vissum að þeir myndu gera allt til að ná áhlaupi á okkur og myndu þá fá húsið með sér enda var hér nánast fullt hús og frábær stemning. Okkar vandamál á þessum kafla var að við klikkuðum á fimm dauðafærum eða svo sem við höfðum ekki gert fram að því. Vörnin hélt en við misstum aðeins niður markvörsluna á þessum kafla. Það var frábært að komast frá þessu áhlaupi og að ná muninum aftur upp í fimm mörk var gríðarlega mikilvægt. Þá sá maður að loftið fór úr þeim því þá var þetta orðið erfitt fyrir þá og aðeins átta mínútur eftir. En virkilega ánægjulegt fyrir okkur,“ sagði Halldór sem setti Birki Fannar Bragason í markið þegar tæpt korter var eftir og hann þakkaði traustið með mikilvægri markvörslu. „Já Birkir kom frábær inn. Við vitum alveg hvað við höfum í Birki og hann hefur líka reynslu. Hann kom sterkur inn í leikinn.“

Gísli Þorgeir Kristjánsson reynir að komast fram hjá Vigni Stefánssyni …
Gísli Þorgeir Kristjánsson reynir að komast fram hjá Vigni Stefánssyni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert