„Hugurinn stefnir hærra“

Aron Dagur Pálsson er kominn til Stjörnunnar.
Aron Dagur Pálsson er kominn til Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan úr Garðabæ ætlar sér greinilega að mjaka sér upp úr neðri hluta Olís-deildar karla í handbolta á næsta tímabili. Frá því að keppni lauk hjá Stjörnunni hefur liðið tryggt sér einn sterkasta varnarmann landsins, Bjarka Má Gunnarsson, og einn efnilegasta leikstjórnanda landsins, Aron Dag Pálsson. Tilkynnt var um félagaskipti Arons og markvarðarins Lárusar Gunnarssonar úr Gróttu á blaðamannafundi í gær.

Í máli Karls Daníelssonar, formanns handknattleiksdeildar Stjörnunnar, á fundinum kom fram að Garðbæingar væru orðnir leiðir á „ströggli“ karlaliðsins síðustu ár en kvennaliðið hefði haldið merki félagsins hátt á lofti. Karl sagðist nú sjá fyrir sér að Stjarnan tefli fram mjög öflugum liðum hjá báðum kynjum næsta vetur.

Aron Dagur gerði eins árs samning við Gróttu í fyrra og var því laus allra mála. Spurður um hvort það séu þung skref að taka að yfirgefa uppeldisfélagið segir Aron það mega til sanns vegar færa. „Já klárlega. Þetta er engin óskastaða í rauninni því auðvitað hefði ég viljað vera áfram á Nesinu ef forsendur hefðu verið fyrir því að krækja í fyrsta titilinn hjá karlaliði félagsins. Persónulega taldi ég rétt að færa mig með minn feril í huga. Stundum þarf maður að vera eigingjarn í sínum málum,“ sagði Aron þegar Morgunblaðið spjallaði við hann í gær. Eftirmaður Gunnars Andréssonar, fráfarandi þjálfara Gróttu, virðist ekki vera fundinn og nokkrir leikmenn hafa nú yfirgefið félagið því Lárus Helgi Ólafsson er farinn til Aftureldingar.

Nánar er fjallað um félagaskiptin í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert