Nú varð enginn dómaraskandall

Frá leik Turda og Vals í Rúmeníu.
Frá leik Turda og Vals í Rúmeníu. Ljósmynd/Mircea Rosca

Það varð enginn dómaraskandall í Rúmeníu um helgina þegar Potaissa Turda og Sporting Lissabon áttust við í síðari úrslitaleiknum í Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik.

Eins og frægt er orðið voru Valsmenn hreinlega flautaðir út úr keppninni þegar þeir mættu rúmenska liðinu á útivelli í síðari viðureign liðanna í undanúrslitunum keppninnar. Um algjöran dómaraskandal var að ræða hjá tékkneska dómaraparinu. Eftir að Valur hafði unnið fyrri leikinn í Valshöllinni með átta marka mun vann Potaissa Turda seinni leikinn með níu marka mun með dyggri aðstoð dómaranna.

Sporting Lissabon var í góðri stöðu fyrir seinni eftir að hafa unnið með níu marka mun á heimavelli, 37:28. Portúgalska liðið hafði svo betur í seinni leiknum sem það vann með sex marka mun, 30:24, og samanlagt, 67:52, en leikurinn fór fram í Cluj í Rúmeníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert