Snýst um hvað við gerum

Ásgeir Örn Hallgrímsson hitar upp á æfingu íslenska landsliðsins í …
Ásgeir Örn Hallgrímsson hitar upp á æfingu íslenska landsliðsins í Laugardalshöll. mbl.is/Golli

„Úr því sem komið er það gott að fá hreinan úrslitaleik. Vonandi verður góð stemning á leiknum. Við ætlum okkur sigur,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, landsliðsmaður í handknattleik, en hann verður í eldlínunni þegar íslenska landsliðliðið mætir Úkraínu í hreinum úrslitaleik um keppnisrétt á Evrópumeistaramótinu í Laugardalshöllinni á morgun. 

„Þeir léku vel þegar við mættum þeim í Úkraínu í nóvember. Liðið er skipað stórum og þungum leikmönnum auk þess sem þeir hafa á að skipa óhefðbundnum markverði sem er góður. Ég held samt að leikurinn snúist fyrst og fremst um  hvernig við komum stemmdir inn í leikinn og hvað við ætlum okkur að gera. Ég hef bullandi trú á að allt verði gert upp í topp af okkar hálfu í leiknum. Ég hef ekki ástæðu til að ætla annað,“ sagði Ásgeir Örn sem leikur á morgun sinn 247. landsleik.

„Leikurinn snýst um okkur og hvað við ætlum að gera, ekki hvort Úkraínumenn leika eitt nýtt leikkerfi sem gæti komið okkur á óvart. Sigur myndi létta lundina og gera sumarfríið enn skemmtilegra,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson.

Viðureign Íslands og Úkraínu hefst í Laugardalshöllinni kl. 18.45 á morgun. Miðasala er hafin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert