Svartfjallaland komið í lokakeppni EM

Stefan Cavor spilar með Svartfellingum.
Stefan Cavor spilar með Svartfellingum. AFP

Svartfjallaland er komið í lokakeppni Evrópumótsins í handbolta eftir 27:27 jafntefli við Rússa í Rússlandi í dag. Leikurinn var hreinn úrslitaleikur um hvor þjóðin myndi fylgja Svíum úr 6. riðli undankeppninnar. 

Fyrir leikinn voru Svartfellingar með tveimur stigum meira en Rússland og nægði þeim því jafntefli. Rússarnir virtust hins vegar ætla að stinga þá af í fyrri hálfleik og var staðan í leikhléi 16:11 Rússum í vil.

Svartfellingar skoruðu tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks og minnkuðu hægt og rólega muninn eftir því sem leið á hálfleikinn. Þeim tókst svo loks að jafna í stöðunni 24:24 og skoruðu liðin þrjú mörk hver eftir það og þar við sat. 

Þetta er í fyrsta skipti sem Rússar missa af sæti í lokakeppni EM frá því að keppnin var fyrst haldin árið 1994. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert