Njótum þess að fara í sumarfrí

Janus Daði Smárason í leiknum í kvöld.
Janus Daði Smárason í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Janus Daði Smárason, landsliðsmaður í handknattleik, var vissulega mjög ánægður með 34:26 sigur Íslands gegn Úkraínu í Laugardalshöll í kvöld. Ísland tryggði sér sæti í lokakeppni EM með sigrinum og sagði Janus íslenska liðið einfaldlega vera betra í handbolta en andstæðingurinn. 

„Við mættum grimmari og beittari til leiks og við vitum að við erum betri í handbolta og við sýndum það í dag. Við keyrðum vel á þá og spiluðum góða vörn, það var það helsta sem skilaði þessu."

„Þeir eru þungir og miklir og enduðu oft inni í teig og fengu víti. Við byrjuðum stundum of nálægt þeim og þeir fengu fleiri fríköst en þeir áttu að fá. Í lok dags er ég hins vegar glaður, við tryggjum okkur inn á EM og það var markmiðið."

Eftir langt og strangt tímabil er loksins sumarfrí í vændum hjá Janusi og liðsfélögum hans. 

„Við njótum þess að vera komnir í sumarfrí, þetta er orðið tíu mánaða tímabil og það er gott að fá smá pásu. Við fáum fjórar vikur í hvíld núna og við ætlum að njóta þess."

Janus virtist ekki allt of sáttur við eigin frammistöðu í kvöld, þótt hann hafi vissulega verið ánægður með sigurinn. 

„Ég var allt í lagi, ég hefði getað gert ýmislegt betur á þessum tíma sem ég fékk inni á. Ég skilaði ágætlega fyrir liðið og liðið vann. Þá er ég rosa glaður," sagði Janus Daði Smárason. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert