Vil ekki vera á bekknum frekar en Bjöggi

Strákarnir fögnuðu með áhorfendum eftir leik.
Strákarnir fögnuðu með áhorfendum eftir leik. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta og Slóvenía á útivelli um árið, það var fínn leikur," sagði Aron Rafn Eðvarðsson, markmaður íslenska handboltalandsliðsins, er hann var spurður hvort hann hafi leikið sinn besta landsleik á ferlinum í 34:26 sigrinum á Úkraínu í Laugardalshöll í dag. Ísland tryggði sér sæti á EM í Króatíu sem fram fer á næsta ári með sigrinum. 

„Þetta var þokkalega öruggt, við vorum í smá veseni til að byrja með og það tók sinn tíma að slíta þá frá okkur, þar sem þeir náðu oft að minnka muninn þegar við vorum komnir með fína forystu. Við náðum loksins að slíta þá almennilega af okkur síðasta korterið."

Hann segir leikinn í dag vera þann besta sem liðið spilaði í riðlinum og rifjaði hann í leiðinni upp leikinn gegn Úkraínu á útivelli, þar sem Ísland tapaði við nokkuð furðulegar aðstæður. 

„Ég var bara með gegn Tékklandi og svo í dag, því ég missti af fjórum fyrstu leikjunum. Leikirnir á útivelli voru erfiðir. Leikurinn við Úkraínu var spilaður í Sumy þar sem gólfið virtist vera byggt á einhvern veginn. Þetta var voðalega furðulegt þar, en þetta var hugsanlega okkar besti leikur."

Aron stóð sig mjög vel í dag, en hann er ekki byrjaður að hugsa til byrjunarliðssætis á lokamótinu í Króatíu. 

„Það er langt í mótið og ég er ekki alveg byrjaður að hugsa svo langt, en maður er auðvitað í þessu til að vera í byrjunarliðinu. Ég vil ekki vera á bekknum frekar en Bjöggi. Við erum báðir flottir markmenn og við viljum báðir spila," sagði Aron Rafn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert