Færeyingar unnu þróunarmót IHF

Færeyingar verða með í næstu undankeppni.
Færeyingar verða með í næstu undankeppni. Ljósmynd/EHF

Færeyjar báru sigur úr býtum á þróunarmóti IHF í handknattleik karla eftir 26:25 sigur á Tyrklandi í úrslitaleik í Búlgaríu í gærkvöldi. Færeyjar tryggðu sér í leiðinni þátttökurétt í undankeppni fyrir Evrópumótið árið 2020, sem fram fer í Svíþjóð, Noregi og Austurríki.

Færeyingar vörðu titil sinn á mótinu, en þeir unnu það einnig árið 2015. Kósóvó tók þriðja sætið með 32:25 sigri á Kýpur. Sextán þjóðir tóku þátt í mótinu en Færeyingar unnu alla leiki sína. Þeir sigruðu Kína 30:23, Moldóvu 40:30 og Armeníu 44:6 í riðlakeppninni, Búlgaríu 30:24 í átta liða úrslitum og Kósóvó 33:30 í undanúrslitum.

Færeyjar, Tyrkland og Kósóvó tryggðu sér öll þátttökurétt í undankeppni Evrópumótsins árið 2020. Stækka á undankeppnina úr 28 þjóðum yfir í 32 þjóðir, en Ítalía, Eistland og Grikkland höfðu áður tryggt sér sæti í undankeppninni. Dregið verður í riðla fyrir undankeppnina í apríl á næsta ári.

mbl.is