Aron Rafn semur við ÍBV

Landsliðsmarkvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson flytur heim og stendur í marki …
Landsliðsmarkvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson flytur heim og stendur í marki ÍBV næstu tvö árin. mbl.is/Árni Sæberg

Aron Rafn Eðvarðsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik, hefur skrifað undir tveggja ára samning við ÍBV og snýr þar með heim að lokinni fjögurra ára dvöl erlendis hjá félagsliðum í Danmörku, Svíþjóð og nú síðast í Þýskalandi.

Samhliða þessu hefur annar landsliðsmarkvörður, Stephen Nielsen, framlengt samning sinn við ÍBV til eins árs. Það er ljóst að ÍBV-liðið verður ekki á flæðiskeri statt með markverði á næsta keppnistímabili.

Aron Rafn er 28 ára og uppalinn hjá Haukum í Hafnarfirði þar sem hann varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari, tvisvar bikarmeistari og fjórum sinnum deildarmeistari áður en hann hélt í atvinnumennsku til Svíþjóðar. Fyrst lék Aron með Eskilstuna GUIF í Svíþjóð, þá Aalborg í Danmörku og nú síðast SG BBM Bietigheim í þýsku 2. deildinni.

Aron Rafn hefur spilað 75 landsleiki fyrir Íslands hönd, þann síðasta gegn Úkraínu í Laugardalshöll á sunnudaginn þegar íslenska landsliðið tryggði sér keppnisrétt á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Króatíu í upphafi næsta árs. Aron Rafn fór á kostum í viðureigninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert