Var kominn með leiða á handbolta

Aron Rafn Eðvarðsson stóð sig vel í sigri Íslands á …
Aron Rafn Eðvarðsson stóð sig vel í sigri Íslands á Úkraínu á sunnudaginn. mbl.is/Kristinn

„Þegar maður sá metnaðinn hjá strákunum í liðinu; að vera eiginlega bara fegnir að komast ekki upp um deild, þá var eiginlega botninum náð,“ segir Aron Rafn Eðvarðsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, sem kominn er heim úr atvinnumennsku og hefur samið við ÍBV.

Fréttir af vistaskiptum Arons Rafns komu mörgum á óvart en hann er 28 ára gamall og hefur verið í atvinnumennsku í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi síðustu fjögur ár. Hann var með samning til sumarsins 2018 við þýska félagið Bietigheim, lék vel með liðinu í vetur og var afar nálægt því að komast með því upp í efstu deild. En hvað kom til að Aron ákvað að spila í Olís-deildinni á næstu leiktíð, þegar hann hafði fleiri en eitt tækifæri til að leika áfram í atvinnumennsku?

„Það var mikið svekkelsi að hafa ekki komist upp í efstu deild með Bietigheim. Addi Pé [Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV] var búinn að heyra í mér eftir úrslitakeppnina hér á Íslandi og kanna stöðuna, en ég vildi bíða með allt því ég hafði trú á að við kæmumst upp og að ég myndi geta spilað í efstu deild Þýskalands næsta vetur. Það voru mikil vonbrigði og leiðindi að ná því ekki,“ segir Aron.

Í fjarsambandi í tvö og hálft ár

„Mér fannst metnaðurinn í liðinu líka ekki nægilega mikill. Ég held að menn hafi verið frekar fegnir en hitt að komast ekki upp. Þetta var ekki alveg það sem ég var að leitast eftir. Ég náði samkomulagi við félagið um að ég fengi að fara heim, og er mjög ánægður með hvernig félagið brást við og leyfði mér að fara,“ segir Aron.

Aron Rafn lék með Haukum áður en hann fór í …
Aron Rafn lék með Haukum áður en hann fór í atvinnumennsku en flyst nú til Vestmannaeyja. Ljósmynd/Foto Olimpik

„Ég er búinn að vera í fjarsambandi í tvö og hálft ár, kærastan mín býr á Íslandi, svo það spilaði inn í líka. Svo vildi ég bara komast heim og geta ýtt á svona „restart“-takka. Mér fannst ég hafa staðnað svolítið þarna úti, þó að ég hafi spilað vel. Eftir áramót fann ég að ég var að staðna og vildi breyta til. Addi hafði samband og mér leist vel á það sem hann var að pæla,“ bætir hann við.

En þegar markvörður á besta aldri, sem fékk að byrja síðasta landsleik og stóð sig afar vel þegar Ísland vann Úkraínu og tryggði sér sæti á EM, snýr heim í áhugamannadeild er það þá ekki augljóslega skref niður á við?

Var ekki lengur sama skemmtun og áður

„Það má alveg líta á þetta þannig, og ég var nú búinn að undirbúa mig fyrir þessar spurningar. Ég las viðtal við Rúnar Kárason um daginn og er svolítið sammála því sem hann sagði um að þá sjaldan að það er einhver pása í Þýskalandi, þá er ekkert verið að fara í keilu og hafa gaman með strákunum, heldur bara æfingar og sami undirbúningur alla daga. Ég var kominn með pínu leiða á handbolta. Þetta var ekki sama skemmtun og áður. Ég hafði möguleika á að vera áfram úti og finna mér annað félag, en stundum þarf maður að taka eitt skref aftur á bak til þess að fara tvö áfram. Ég hef alls ekki útilokað að fara aftur út, það er klárlega stefnan. Ég er 28 ára og það er enginn aldur hjá markverði,“ segir Aron.

Landsliðsmarkverðirnir Aron Rafn Eðvarðsson og Björgvin Páll Gústavsson verða andstæðingar …
Landsliðsmarkverðirnir Aron Rafn Eðvarðsson og Björgvin Páll Gústavsson verða andstæðingar í Olís-deildinni á næstu leiktíð. mbl.is/Kristinn

Aron er uppalinn hjá Haukum en þar verður félagi hans úr landsliðinu, Björgvin Páll Gústavsson, í markinu á næstu leiktíð eftir að hafa einnig ákveðið að snúa heim úr atvinnumennsku. En getur ÍBV boðið Aroni sams konar kjör og félag eins og Bietigheim?

Ekki að sækjast eftir peningum

„Nei, ég var nú ekki að sækjast eftir einhverjum peningum. Ég vildi aðallega komast til Íslands og taka þátt í þessu spennandi dæmi hjá ÍBV. Það eru margir vinir mínir í liðinu. Ég er ekki að koma til ÍBV út af peningum. Ég hefði sennilega farið í Haukana ef að kollegi minn í landsliðinu hefði ekki verið þar,“ sagði Aron hlæjandi og var fljótur að taka þau orð til baka: „ÍBV er mjög spennandi kostur og ég er mjög ánægður.“

Það stefnir í mikla samkeppni hjá ÍBV á næstu leiktíð því annar landsliðsmarkvörður, Stephen Nielsen, hefur skrifað undir samning til eins árs í viðbót:

Bitnar ekki á landsliðinu

„Það er bara betra og eitthvað sem ég vildi. Ég var ekki með neinn hjá Bietigheim til að berjast við mig um stöðuna. Það var bara ungur strákur og hann kom bara inn á til að reyna að verja víti. Það er gott fyrir mig að fá samkeppni á æfingum til að maður reyni að bæta sig og sýna að maður sé betri,“ segir Aron, og hann telur það ekki bitna á íslenska landsliðinu að allir markverðir þess leiki á Íslandi á næstu leiktíð:

„Ég held það nú ekki. Olís-deildin hefur verið að styrkjast gífurlega. Það er kannski ekki sami atvinnumannabragur yfir þessu þegar maður er að vinna eða í námi samhliða æfingum, en ég held að maður sé þá enn frekar „mótiveraður“ þegar maður kemur í landsliðið og hittir strákana. Ég held að við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert