Alltaf gaman að mæta heimaþjóðinni

Arnór Atlason.
Arnór Atlason. AFP

„Það er alltaf gaman að spila á móti heimaþjóðinni og það verður örugglega gaman að mæta Króatíu í Split,“ sagði Arnór Atlason, landsliðsmaður í handbolta, við mbl.is eftir að dregið var í riðla fyrir Evrópumótið í Króatíu sem fram fer í janúar á næsta ári. Ísland mætir Króatíu, Svíþjóð og Serbíu í borginni Split. 

Arnór segir riðilinn mjög sterkan og krefjandi en á sama tíma skemmtilegan. 

„Riðilinn er virkilega sterkur og þetta eru ótrúlega góðar handboltaþjóðir sem við erum að mæta. Ég hefði verið til í að fá Hvíta-Rússland frekar en Svíþjóð úr öðrum styrkleikaflokki en því fór sem fór. Að mæta Serbíu í Króatíu verður eflaust ekkert grín. Þetta er ótrúlega skemmtilegur en jafnframt krefjandi riðill. Markmiðið er að sjálfsögðu að fara áfram,“ sagði Arnór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert