Rúnar fékk áhugavert þjálfarateymi

Antonio Carlos Ortega ræðir við Alfreð Gíslason, þjálfara Kiel.
Antonio Carlos Ortega ræðir við Alfreð Gíslason, þjálfara Kiel. AFP

Rúnar Kárason er kominn með nýja þjálfara hjá Hannover-Burgdorf í þýsku 1. deildinni í handknattleik, en Jens Bürkle var rekinn í síðustu viku.

Í hans stað hefur Hannover ráðið tvo Spánverja, þá Antonio Carlos Ortega og Iker Romero, sem munu í sameiningu stýra liðinu.

Ortega er 45 ára gamall og var síðast þjálfari KIF Kolding í Danmörku og hjá japanska landsliðinu. Hann stýrði einnig ungverska stórliðinu Veszprém árin 2012-2015. Romero er 37 ára gamall og er að fara í sitt fyrsta þjálfarastarf, en hann lagði skóna á hilluna árið 2015 eftir að hafa spilað með Füchse Berlin og Barcelona þar á undan. Hann á 200 landsleiki að baki fyrir Spánverja.

Hannover endaði í 11. sæti þýsku 1. deildarinnar á síðasta tímabili, en liðið vann ekki leik eftir áramót og tapaði meðal annars sextán leikjum í röð. Rúnar fékk sjálfur lítið að spreyta sig þessa mánuði sem illa gekk, eins og hann ræddi um við Morgunblaðið á dögunum.

Rúnar Kárason er kominn með nýja þjálfara.
Rúnar Kárason er kominn með nýja þjálfara. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert