Sérstakt að mæta Íslandi

Kristján Andrésson er landsliðsþjálfari Svía.
Kristján Andrésson er landsliðsþjálfari Svía. AFP

Kristján Andrésson, landsliðsþjálfari Svía í handknattleik og fyrrverandi landsliðsmaður Íslands, segir að lið sitt sé í erfiðum en spennandi riðli í úrslitakeppni Evrópumótsins í Króatíu í janúar á næsta ári.

Svíþjóð er með Íslandi, Króatíu og Serbíu í riðli og í fyrstu umferðinni 12. janúar mætast Ísland og Svíþjóð í Split en dregið var fyrir stundu í Zagreb.

„Það verður mjög sérstakt fyrir mig að mæta Íslandi en þegar á hólminn verður komið í Split er það bara leikur sem þarf að vinnast,“ sagði Kristján á vef sænska handknattleikssambandsins.

„Leikurinn við Króata verður mjög sérstakur með allri þeirri umgjörð sem áhorfendur á heimavelli munu skapa. Þeir eru með geysilega gott lið sem kemst næstum því alltaf langt á stórmótum. Serbar eru með marga góða leikmenn og það er erfitt að spila gegn þeim eins og gegn öllum Balkanliðunum, sérstaklega á þessum slóðum,“ sagði Kristján.

Fram kom að Ísland og Svíþjóð muni mætast í tveimur vináttulandsleikjum í lok október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert