Atli Ævar á leið í Olís-deildina

Atli Ævar Ingólfsson var í A-landsliðshópnum sem keppti á æfingamóti …
Atli Ævar Ingólfsson var í A-landsliðshópnum sem keppti á æfingamóti í Noregi í sumar og var nálægt sæti í hópnum sem lék síðustu leikina í undankeppni EM. mbl.is/Golli

Línumaðurinn Atli Ævar Ingólfsson reiknar með að snúa heim úr atvinnumennsku og spila í Olís-deildinni í handbolta næsta vetur.

Þetta kemur fram í viðtali við Atla Ævar í Fréttablaðinu í dag. Hann lék síðast með Sävehof í Svíþjóð og hefur verið í atvinnumennsku frá árinu 2012, í Danmörku og Svíþjóð, eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með HK.

„Það er ekki 100 prósent búið að negla það að ég komi heim en það er ansi líklegt. Það lítur út fyrir að við séum á heimleið og því er ég að skoða hvað er í boði,“ sagði Atli Ævar við Fréttablaðið, en eins og fyrr segir reiknar hann með því að spila í Olís-deildinni næsta vetur:

„Það eru tvö til þrjú lið sem eru búin að hafa meira samband en önnur lið. Það eru þau sem ég er að skoða núna. Þetta eru lið í efri hlutanum sem við erum að tala um,“ sagði Atli Ævar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert