Níu marka sigur gegn Argentínu

Ómar Ingi Magnússon og félagar í íslenska liðinu byrja vel …
Ómar Ingi Magnússon og félagar í íslenska liðinu byrja vel á HM. mbl.is/Golli

Íslenska 21 árs landsliðið í handknattleik karla vann öruggan sigur á Argentínu, 36:27, í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramótinu sem hófst í Alsír í dag.

Ísland var yfir í hálfleik, 19:12, og sigurinn var aldrei í hættu. Staðan var orðin 29:16 snemma í seinni hálfleiknum en Argentína skoraði þá sjö mörk í röð og lagaði stöðuna í 29:23. Nær komust andstæðingarnir ekki.

Elvar Örn Jónsson skoraði 9 mörk fyrir Ísland, Óðinn Þór Ríkharðsson 7, Ómar Ingi Magnússon 4, Sigtryggur Daði Rúnarsson 3, Ýmir Már Gíslason 3, Arnar Freyr Arnarsson 2, Elliði Viðarsson 2, Hákon Daði Styrmisson 2, Birkir Benediktsson 1, Þorgeir Davíðsson 1, Dagur Arnarsson 1 og Kristján Kristjánsson 1.

Ísland mætir Sádi-Arabíu í annarri umferð riðlakeppninnar á morgun. Króatar unnu Sádi-Araba, 32:26, í fyrsta leik riðilsins í dag en leikur Alsír og Marokkó fer fram í kvöld.

Færeyingar eru á meðal tólf fulltrúa Evrópu á mótinu og þeir fengu óskabyrjun á sínu fyrsta stórmóti. Færeyska liðið lagði Sílemenn að velli, 31:28.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert