Aron neitaði að æfa með Veszprém

Aron Pálmarsson í leik með Veszprém gegn Barcelona.
Aron Pálmarsson í leik með Veszprém gegn Barcelona. Ljósmynd/INA FASSBENDER

Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik, neitaði að æfa með ungverska liðinu Veszprém í dag og fór í kjölfarið heim til Íslands en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins. Aron á enn eitt ár eftir af samningi sínum við Veszprém.

Ljubomir Vranjes, þjálfari liðsins, segist ekki ætla að nota Aron á leiktíðinni, en samkvæmt félaginu tjáði Aron þjálfaranum að hann yrði ekki með á æfingu liðsins í dag, fimmtán mínútum áður en hún átti að hefjast.

Í yfirlýsingu á heimasíðu Veszprém kemur fram að framkoma Arons sé óásættanleg og að félagið ætli í mál við Aron, þar sem hann stendur ekki við samning sinn við það.

Aron hefur verið orðaður við Barcelona að undanförnu en samkvæmt fréttinni gerðu Barcelona og Veszprém samkomulag um að Aron gengi ekki í raðir Barcelona í vetur. Fréttamiðlar á Spáni höfðu hins vegar áður greint frá því að Aron hafi skrifað undir samning við Barcelona. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert