Fyrsta tap U21 árs liðsins á HM

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði 5 mörk fyrir Íslendinga í dag.
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði 5 mörk fyrir Íslendinga í dag. Ljósmynd/IHF

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik skipað leikmönnum 21 árs og yngri tapaði fyrir Króötum, 29:26, í lokaleik sínum í riðlakeppni heimsmeistaramótsins sem haldið er í Alsír.

Króatar höfðu undirtökin allan tímann og voru níu mörkum yfir eftir fyrri hálfleikinn, 17:8. Íslenska liðið náði að laga sinn hlut í seinni hálfleik og þegar um fjórar mínútur voru eftir var munurinn kominn niður í þrjú mörk en Króatar héldu fengnum hlut og fögnuðu sigri.

Þetta var úrslitaleikur um efsta sætið í riðlinum. Króatar urðu í efsta sætinu með 9 stig en Íslendingar höfnuðu í öðru sætinu með 8. Það skýrist síðar í dag hver verður mótherji Íslendinga í 16-liða úrslitunum en Túnis, Makedónía, Brasilía og Rússland koma öll til greina.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur í íslenska liðinu með 7 mörk, Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði 5 og Ómar Ingi Magnússon skoraði 4.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert