Án búslóðar með hráka í andlitinu

Björgvin Hólmgeirsson er mættur í Breiðholtið, án búslóðar.
Björgvin Hólmgeirsson er mættur í Breiðholtið, án búslóðar. Eva Björk Ægisdóttir

Björgvin Þór Hólmgeirsson, atvinnumaður í handbolta, gekk til liðs við ÍR fyrir komandi tímabil í Olís-deildinni. Björgvin hefur leikið síðustu tvö ár í Dúbaí, en flutti heim í júní ásamt fjölskyldu sinni. Þó virðist vera einn hængur á málinu, en búslóð fjölskyldunnar hefur enn ekki skilað sér.

Björgvin var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun og má heyra viðtalið í heild sinni hér.

Þar kom fram að tvö fyrirtæki hafi séð um flutninga á búslóð fjölskyldunnar, en ekkert hafi spurts til hennar. Ekki sé hægt að ná í neinn á vegum fyrirtækisins og hafi margir lent í líkum svikum.

Hann segir fyrirtækið hafa verið tryggt svo ekki sé mikið hægt að gera. Peningarnir sem þau greiddu fyrir flutningana eru horfnir, en hann vonar þó að búslóðin komi í leitirnar. Verið sé að leita að gámunum og að allri búslóðinni, en allir kassar hafi til að mynda verið merktir.

Björgvin hafi greitt fyrirtækinu með peningum, en það sé ekki óalgengt þar sem fólk hafi rekið sig á að fá innistæðulausar ávísanir. Oft þurfi fólk að greiða háar upphæðir með peningum og hann telur að fyrirtækinu hafi með þessu móti tekist að svíkja út tugi milljóna.

Málið sé í rannsókn en og lögreglan hafi fundið staðsetningu þar sem fyrirtækið var með vöruhús og vonar Björgvin að hann heyri frá lögreglunni í dag.

Björgvin lék með Al Wasl í Dúbaí, en mun leika með ÍR í Olís-deildinni í vetur. Breiðhyltingar komust upp úr fyrstu deildinni í lok síðasta tímabils er liðið sigraði Þrótt í umspilsleikjum.

Björgvin segist aldrei hafa vitað við hverju átti að búast á æfingum, en mjög misjafnt var hversu margir mættu á æfingu. Meiri barningur sé í handboltanum úti og nefnir Björgvin dæmi.

"Við unnum einn leik um daginn með 10 mörkum eða þar um bil og til mín kom gæi sem var svekktur í fyrri hálfleik og þóttist ætla að taka í hendina á mér en skyrpti svo framan í mig. Þeir eru svo blóðheitir, maður, það er ekkert hægt að gera við þá.“

ÍR stefnir á að koma sér í fremstu röð í haust, en þá er góð viðbót að fá besta leikmann Olís-deildarinnar frá tímabilinu 2014-15 aftur í liðið. Staðan á liðinu sé góð og gott sé að vera kominn aftur í Breiðholtið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert