Sigurmark í blálokin og Ísland tók efsta sætið

Íslenska liðið fagnar í dag.
Íslenska liðið fagnar í dag. Ljósmynd/Heimasíða mótsins

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik skipað leikmönnum 19 ára og yngri fór í gegnum riðlakeppni heimsmeistaramóts 19 ára landsliða með fullt hús stiga eftir sigur á Þýskalandi, 28:27, í úrslitaleik um efsta sæti B-riðils í dag. Leikið er í Georgíu.

Íslenska liðið tók forystu snemma leiks, komst meðal annars í 5:1 og 8:5 áður en Þjóðverjar jöfnuðu í 9:9. Staðan var svo áfram jöfn í hálfleik, 12:12, og jafnræðið hélst áfram eftir hlé. Íslenska liðið var hins vegar með yfirhöndina á meðan Þjóðverjarnir þurftu að elta.

Þegar mínúta var eftir af leiknum var Ísland marki yfir, 27:26, en Þjóðverjar jöfnuðu þegar hálf mínúta var eftir. Ísland tók leikhlé þegar 12 sekúndur voru eftir fyrir lokasóknina. Þar var það Orri Þorkelsson sem skoraði sigurmarkið úr vinstra horninu og tryggði dramatískan sigur, 28:27, og var fögnuður strákanna skiljanlega innilegur eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.

Teitur Örn Einarsson var valinn besti maður Íslands í leiknum, en hann var markahæstur með tíu mörk. Þá varði Andri Scheving 17 skot í markinu.

Mörk Íslands: Teitur Örn Einarsson 10, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 10, Örn Ostenberg 3, Sveinn Andri Sveinsson 3, Orri Freyr Þorkelsson 3, Hannes Grimm 2, Úlfur Gunnar Kjartansson 1, Birgir Már Birgisson 1.

Ísland mætir því liði sem hafnar í fjórða sæti A-riðils í 16-liða úrslitunum, en mögulegur mótherji er Svíþjóð, Noregur eða Barein og fer leikurinn fram á miðvikudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert