Teitur frábær en fyrsta tap Íslands dýrkeypt

Teitur Örn Einarsson fór á kostum í dag.
Teitur Örn Einarsson fór á kostum í dag. mbl.is/Golli

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik skipað leikmönnum 19 ára og yngri komst ekki í átta liða úrslitin á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Georgíu eftir tap fyrir Svíum, 31:25, í 16-liða úrslitum mótsins nú í morgun.

Íslenska liðið vann alla sína leiki í riðlakeppninni á meðan Svíar höfnuðu í fjórða sæti síns riðils með tvo sigra í fimm leikjum. Það skipti hins vegar engu máli í dag þar sem Svíar voru sterkari aðilinn allan tímann.

Svíar náðu jafnt og þétt að byggja upp forskot sitt, komust meðal annars í 11:6 í fyrri hálfleik en að honum loknum var staðan 14:11 fyrir Svía. Eftir hlé náðu íslensku strákarnir aldrei að ógna forskoti þeirra að ráði og fóru illa með mörg góð færi á lokamínútunum. Niðurstaðan öruggur sigur Svía, 31:25. Þeir fara í átta liða úrslit en Ísland spilar um sæti 9-16.

Teitur Örn Einarsson fór á kostum hjá íslenska liðinu og skoraði 14 mörk. Hann var markahæsti maður mótsins eftir riðlakeppnina.

Mörk Íslands: Teitur Örn Einarsson 14, Sveinn Jose Rivera 2, Kristófer Sigurðsson 2, Hafþór Már Vignisson 2, Birgir Már Birgisson 1, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 1, Örn Ostenberg 1, Steinn Andri Sveinsson 1, Orri Freyr Þorkelsson 1, Úlfur Gunnar Kjartansson 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert