Arnór skoraði átta mörk í bikarsigri

Arnór Þór Gunnarsson átti mjög góðan leik í dag.
Arnór Þór Gunnarsson átti mjög góðan leik í dag. Ljósmynd/Facebook-síða Bergischer

Arnór Þór Gunnarsson var markahæsti leikmaður vallarins í 34:25 sigri Bergischer á Leutershausen í fyrstu umferð þýska bikarsins í handknattleik í dag. Arnór skoraði átta mörk og fór á kostum. 

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði þrjú mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen sem vann Balingen, 41:28. Alexander Petersson komst ekki á blað fyrir Löwen og Sigtryggur Rúnarsson skoraði ekki fyrir Balingen. Rúnar Sigtryggsson þjálfar Balingen. 

Fannar Friðgeirsson skoraði eitt mark fyrir Hamm sem hafði betur gegn Hamborg á útivelli í framlengdum leik, 33:32. Rúnar Kárason skoraði sömuleiðis eitt mark fyrir Hannover-Burgdorf sem vann Lübbecke, 26:24.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel unnu Spenge af öryggi, 36:19. Ragnar Jóhannsson var ekki með Hüttenberg sem vann Pforzheim, 30:22. Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar Hüttenberg. 

Oddur Grétarsson var ekki með Emsdetten sem vann öruggan útisigur á Oranienburg, 36:24. Bjarki már Elísson spilaði ekki með Füchse Berlín sem vann Springe 29:16 á heimavelli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert