Mörg lið brotnað á heimavelli meistaranna

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var skemmtilegur og flottur leikur. Það er mikið búið að tala um meistara meistaranna leikinn og hversu hraðar hann var og mér fannst þessi leikur ekki gefa honum neitt eftir. Það var mikið skorað, varið og hlaupið; ég er mjög ánægður með leikinn en auðvitað svekkjandi að ná ekki að hirða tvö stig,“ sagði Alfreð Örn Finnsson, þjálfari Gróttu, eftir 24:24 jafntefli gegn Íslandsmeisturum Fram í fyrstu umferð efstu deildar kvenna í handbolta í kvöld.

Fram var marki yfir í hálfleik og virtist sterkari aðilinn á meðan mikið var verið að dæma á lið Gróttu, var Alfreð feginn að vera bara einu marki undir í hálfleik?

„Já og nei, við gáfumst bara ekki upp. Vorum ekki að stressa okkur á því að vera brjóta, reyndum bara að hlaupa með þeim og Selma var svo frábær í markinu. Það eina neikvæða við fyrri hálfleikinn var að við þurftum að vera aðeins þéttari í vörninni og við löguðum það í þeim seinni.“

„Það koma svona kaflar, við vorum seigar í þessum leik að koma okkur í færi en svo gerði Fram rosalega gott áhlaup á okkur. Við missum Lovísu útaf í þrjár sóknir og það hafði áhrif en svo sagði einhver í einu leikhléinu að við ættum að hætta að vera hræddar og þá horfðum við aftur á markið.“

Grótta var mest fimm mörkum yfir en svo kom tíu mínútna kafla þar sem liðið skoraði ekki mark og Fram sneri taflinu við og virtist ætla að landa sigri en Alfreð hrósaði karakter liðs síns.

„Þetta var kannski þetta dæmigerða að við áttum okkur á því að við erum yfir og erum í séns og þá fer maður að reyna verjast. En ég rosalega stoltur af liðinu, við erum lentar undir 24:23 í lokin og náum að jafna. Það hefðu mörg lið brotnað á heimavelli Íslandsmeistaranna.“

Hver eru markmið Gróttu í vetur?

„Það langar öllum að komast í úrslitakeppni en tíminn mun leiða það í ljós hvort við getum krafsað okkur upp í það sæti. Fyrst og fremst þurfum við að passa okkur að vera í deildinni þegar leikirnir hafa verið spilaðir en þessi andi og samstaða mun kroppa í stig,“ sagði Alfreð að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert