Eyjamenn byrja á öruggum sigri

Eyjamaðurinn Sigurbergur Sveinsson sækir að vörn Aftureldingar í leiknum í …
Eyjamaðurinn Sigurbergur Sveinsson sækir að vörn Aftureldingar í leiknum í dag. mbl.is/Eggert

ÍBV vann öruggan sigur á Aftureldingu, 27:23, í upphafsleik liðanna í Olís-deild karla í handknattleik að Varmá í kvöld. Staðan var jöfn, 11:11, í hálfleik en tíu afleitar mínútur Mosfellinga snemma í síðari hálfleik urðu til þess að leiðir skildu.

Fyrri hálfleikur var jafn þar sem varnarleikur og markvarsla settu svip á viðureignina. Hraðinn var ekki mikill. Eyjamenn náðu frumkvæði þegar á leið en Aftureldingarmenn jöfnuðu metin skömmu fyrir hálfleik.

Jafnt var áfram á upphafsmínútum síðari hálfleik en í stöðunni 15:13 fyrir ÍBV tók við tíu mínútna kafli þar sem Mosfellingum féll allur ketill í eld. Hver mistökin ráku önnur í sóknarleiknum. Leikmenn ÍBV nýttu sér það til fulls og skoruðu átta mörk gegn þremur á tíu mínútna kafla. Munurinn var orðinn sjö mörk, 23:16, og 13 mínútur eftir. Þar með voru úrslitin ráðinn. Sterkt lið ÍBV gaf ekki slíkt forskot ekki eftir.

Lið ÍBV fer vel af stað enda afar vel mannað, jafnt í vörn sem sókn með tvo öfluga markverði, Aron Rafn Eðvarðsson og Stephen Nielsen, sem hvor um sig varði nærri um tíu skot. Þeir félagar skiptu leiknum jafnt á milli sín. 

Baráttugleði vantaði í Mosfellinga sem lögðu árar í bát þegar á móti blés. Enginn leikmanna liðsins virtist hafa dug til þess að rífa félaga sína áfram. Baráttulgeðin sem einkenndi Aftureldingarliðið fyrir fáeinum árum síðari og skilaði því oft sigri á síðustu mínútum leikja var víðsfjarri. 

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Afturelding 23:27 ÍBV opna loka
60. mín. Birkir Benediktsson (Afturelding) skoraði mark - eftir hraðaupphlaup.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert