Kiel án Alfreðs sem gekkst undir aðgerð

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Ljósmynd/Jonas Guettler

Alfreð Gíslason, þjálfari þýska stórliðsins Kiel, mun ekki geta stýrt liðinu um helgina gegn Póllandsmeisturum Kielce í Meistaradeild Evrópu í handknattleik.

Alfreð gekkst í dag undir aðgerð á baki og ferðaðist ekki með liðinu til Póllands. Aðstoðarþjálfarinn Christian Sprenger mun stýra Kiel í leiknum, en Alfreð verður ekki lengi frá.

„Ég var að vonast til þess að geta frestað aðgerðinni þangað til í janúar, en þetta gekk ekki lengur og læknateymi liðsins sagði að ég þyrfti að drífa mig í aðgerðina,“ sagði Alfreð. Hann mun snúa aftur á miðvikudag þegar Aron Kristjánsson og lærisveinar hans hjá Aalborg heimsækja Kiel í Meistaradeildinni.

Kiel hefur byrjað tímabilið í Þýskalandi illa og tapað þremur af fyrstu sex leikjum sínum. Það er versta byrjun liðsins í 15 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert