Ekkert bara ein skytta sem fór frá okkur

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er nokkuð sáttur með þetta, okkur hefur ekki gengið vel hérna og við þurftum aðeins að púsla saman liði á síðustu metrunum fyrir þennan leik. Það heppnaðist nokkuð vel og við spiluðum góðan handbolta hérna, bæði í vörn og sókn,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 27:27 jafntefli gegn Aftureldingu í 3. umferð Olísdeildar karla í handknattleik.

Stjörnunni gekk illa að skora í fyrri hálfleik og var undir allan tímann en í þeim síðari skiptust liðin á að taka forystu í hörku leik og var Einar heilt yfir sáttur en þó ekki með færanýtinguna.

„Það sem ég er ósáttastur með er að við förum illa með mikið af upplögðum marktækifærum en það sýnir gæðin í liðinu að þrátt fyrir það erum við að ná jafntefli við Aftureldingu á þeirra heimavelli. Afturelding er með frábært lið og frábæran þjálfara þannig að ég er nokkuð ánægður með stigið.“

Var Einar ósáttur með fyrri hálfleikinn?

„Mér fannst við ekki spila illa, við sköpuðum góð færi og hann var að verja vel í markinu hjá þeim. Við vorum að fara illa með stöður einum fleiri en svo kemur Egill Magnússon inn eftir 10-15 mínútur hjá okkur og það heppnaðist vel, sérstaklega í seinni hálfleik.“

Stjarnan missti Ólaf Gústafsson á dögunum en hann fór til Danmerkur. Hann var einn besti leikmaður Garðbæinga og segir Einar að það sé ákveðið púsluspil að setja saman nýtt lið.

„Við fórum í 6-0 vörn allan seinni hálfleikinn og hún heppnaðist ágætlega. Við erum að koma með nýja menn inn núna. Við þurftum að stíga eitt, tvö skref til baka frá því sem var og þurftum að púsla þessu aðeins saman. Þetta er ekkert bara ein vinstri skytta sem fór frá okkur, þetta er stór biti að missa Óla og svo eru það meiðsli.“

Stjörnumenn eru ósigraðir eftir fyrstu þrjá leiki sína og eru með fjögur stig, er Einar ánægður með úrslit kvöldsins og byrjunina í heild?

„Það er flott að taka stig hérna. Ég vil vinna alla leiki en ég ber virðingu fyrir þeim liðum sem við höfum verið að spila við og þetta er bara ágætisbyrjun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert