Ólafur samdi til þriggja ára

Ólafur Gústafsson.
Ólafur Gústafsson. mbl.is/Árni Sæberg

Danska handknattleiksfélagið KIF Kolding staðfestir á heimasíðu sinni í dag að stórskyttan Ólafur Gústafsson sé búinn að skrifa undir þriggja ára samning við félagið.

Ólafur kemur til Kolding frá Stjörnunni og hann leikur í kvöld sinn fyrsta leik með liðinu þegar það sækir Bjerringbro/Silkeborg heim.

„Ólafur er mjög góður alhliða leikmaður. Hann er bæði sterkur varnarmaður og er góður skotmaður. Með tilkomu hans eykst breiddin í liðinu,“ segir Lars Frederiksen þjálfari KIF Kolding á heimasíðu félagsins. Ólafur hefur áður reynt fyrir sér í atvinnumennskunni. Fyrst með þýska liðinu Flensburg og síðan með Aalborg í Danmörku en hann kom til Stjörnunnar í fyrra.

Kolding er með 3 stig eftir þrjá leiki í dönsku úrvalsdeildinni og er í 11. sæti af fjórtán liðum í deildinni en með sigri í kvöld kemst liðið upp í 4.-6. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert