Vonbrigði að fá ekki bæði stigin

Theodór Ingi Pálmason
Theodór Ingi Pálmason mbl.is/Golli

„Úr því sem komið var þá eru það vonbrigði að fá ekki bæði stigin úr leiknum. Við lögðum svo sannarlega bæði hjarta og sál í leikinn,“ sagði Theodór Ingi Pálmason, leikmaður Fjölnis eftir jafntefli, 27:27, ÍBV í Olís-deild karla í handknattleik í Dalhúsum í kvöld. Eyjamenn jöfnuðu leikinn úr vítakasti eftir að leiktíminn var úti.

„Við vorum virkilega öflugir og mér fannst við vera með tögl og hagldir frá upphafi og miðaið við það hvernig leikurinn þróaðist þá hefðum við átt að fá bæði stigin þótt fyrirfram hefðum við alveg þegið annað stigið,“ sagði Theodór sem fór mikinn í varnarleik Fjölnisliðsins sem var lengst af góður.

Fjölnisliðið sýndi allt aðrar og betri hliðar en í síðustu umferð deildarinnar þegar það tapaði með sextán marka mun fyrir ÍR. Theodór Ingi segir menn hafi verið staðráðnir í að láta slysið í ÍR-leiknum ekki endurtaka sig. „Við nýttum umfjöllunina sem við fengum eftir þann leik til þess að þétta raðirnar og læra af þeim mistökum sem þá voru gerð. Það var mikið sjálfstaust innan hópsins fyrir þennan leik og okkur tókst að undirstrika það þegar á hólminn var komið,“ sagði Theodór Ingi Pálmason, leikmaður Fjölnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert