Ótrúleg umskipti að Varmá

Mikk Pinnonen brýst í gegnum vörn Selfyssinga í kvöld.
Mikk Pinnonen brýst í gegnum vörn Selfyssinga í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Selfoss vann magnaðan sigur á Aftureldingu, 29:28, í 5. umferð Olís-deildar karla í handknattleik að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld. Eftir að hafa átt undir högg að sækja allan leikinn þá sneri Selfoss-liðið leiknum sér í hag á síðustu mínútunum, vann upp fimm marka forskot, og vann með eins marks mun.

Einar Sverrisson skoraði sigurmarkið þegar níu sekúndur voru eftir. Mosfellingar reyndu að jafna en Sölvi Ólafsson, fyrrverandi markvörður Aftureldingar, varði síðasta skotið og innsiglaði ótrúlegan sigur Selfoss-liðsins, með tilliti til þess hvernig leikurinn lengstum var.

Afturelding var yfir í leiknum í 58 mínútur, m.a. 14:11, að loknum fyrri hálfleik. Liðið náði mest fimm marka forskoti í síðari hálfleik, 24:19, þegar rúmar 13 mínútu voru til leiksloka og höfðu fjögurra marka forskot, 26:22, þegar sex mínútur voru eftir. Leikmenn liðsins misstu hinsvegar alveg móðinn á lokakaflanum. Það nýttu baráttuglaðir leikmenn Selfoss sér til fullnustu. Fór þar fremstu jafningja Elvar Örn Jónsson. Hann dreif liðið áfram í sókninni og skoraði mikilvæg mörk á þeim tíma sem Mosfellingum féll allur ketill í eld. 

Selfoss hefur þar með sex stig að loknum fimm leikjum og eru rétt fyrir ofan miðja stöðutöfluna. Afturelding er hinsvegar áfram næst neðst með eitt stig og hljóta menn þar á bæ að hugsa sinn gang hressilega.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Afturelding 28:29 Selfoss opna loka
60. mín. Einar Sverrisson (Selfoss) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert