Höfum ekki æft þetta

Snorri Steinn Guðjónsson
Snorri Steinn Guðjónsson mbl.is/Golli

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var að vonum kátur eftir dramatískan 24:23-sigur sinna manna gegn ÍR í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Valur var undir stóran hluta leiks en tryggði sér sigurinn með glæsilegu marki í síðustu sókn leiksins. 

„Ég er gríðarlega stoltur af strákunum. Þetta var ekki endilega fallegasti leikurinn okkar. ÍR átti hugsanlega skilið stig, ef ekki tvö. Þeir voru yfir meira og minna allan leikinn og við vorum að elta, sem er erfitt."

„Við vorum í Evrópukeppni um helgina og þeir leikir voru vonbrigði. Ég ítreka það að ég er gríðarlega ánægður með að drengirnir kláruðu þennan leik, gáfust ekki upp, börðust eins og ljón allan tímann, sama hvað á gekk."

„Þeir hafa sýnt áður úr hverju þeir eru gerðir. Þetta eru góðri karakterar og það er klárlega eitthvað til að byggja á. Auðvitað þurfum við að laga okkar leik á ýmsum stöðum og við gerum það með tíð og tíma. Stigin tvö eru mikilvæg."

Valsmenn tóku leikhlé rétt áður en sigurmarkið kom. Hann segir sitt lið hafa gert nákvæmlega þetta, þó það hafi ekki verið æft. 

„Já, en við höfum ekki æft þetta."

Japaninn Ryuto Inage spilaði sinn fyrsta deildarleik með Val og stóð sig vel. 

„Hann kom inn eins og við vildum. Hann er búinn að vera hjá okkur í 2-3 vikur og hann hefur fallið vel inn í hópinn. Það er mjög ánægjulegt að sjá hann koma inn og standa sig vel og svo sjáum við til með framhaldið."

Árni Þór Sigtryggsson skoraði fimm mörk í kvöld og átti trúlega sinn besta leik fyrir Val. 

„Það kemur ekki á óvart, hann er klókur og reynslumikill. Hann vissi það manna best sjálfur að hann átti nóg inni. Vonandi verður framhald á því," sagði Snorri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert