Hættur og þakkar Alfreð fyrir öskrin

Guðmundur Hólmar Helgason og Ólafur Andrés Guðmundsson glíma við Filip …
Guðmundur Hólmar Helgason og Ólafur Andrés Guðmundsson glíma við Filip Jicha í landsleik. mbl.is/Golli

Einn fremsti handboltamaður 21. aldarinnar, Tékkinn Filip Jicha, tilkynnti með skemmtilegu myndbandi í dag þá ákvörðun sína að leggja skóna á hilluna.

Í myndbandinu fer Jicha yfir glæstan feril sinn sem leikmaður en ferillinn náði hápunkti þegar hann lék undir stjórn Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel, en þar lék Jicha árin 2007-2015. Hann varð tvívegis Evrópumeistari með liðinu, sjö sinnum þýskur meistari og fimm sinnum þýskur bikarmeistari, svo eitthvað sé nefnt. Þá var hann valinn besti handboltamaður heims árið 2010.

Í myndbandinu sem Jicha sendi frá sér þakkar hann þeim sem lögðu hönd á plóg til að ferill Tékkans gæti orðið eins glæstur og raun ber vitni. Þar þakkar hann meðal annars Alfreð og öðrum þjálfurum sínum fyrir að hafa leiðbeint sér, og fyrir að hafa „öskrað á sig í búningsklefanum“. Myndbandið má sjá hér að neðan.

Á meðal þess sem stendur upp úr hjá Jicha er …
Á meðal þess sem stendur upp úr hjá Jicha er þrennan sem þeir Alfreð Gíslason fögnuðu árið 2012, þegar Kiel varð Evrópumeistari, Þýskalandsmeistari og þýskur bikarmeistari. Ljósmynd/Sascha Klann
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert