HSÍ með leik KA og Akureyrar til skoðunar

Jón Heiðar Sigurðsson gerir eitt fjögurra mark fyrir KA í …
Jón Heiðar Sigurðsson gerir eitt fjögurra mark fyrir KA í leiknum. Til varnar er Arnar Þór Fylkisson markvörður, Igor Kopyshynskyi og Friðrik Svavarsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Handknattleikssamband Íslands er með viðureign KA og Akureyrar í 1. deild karla í handknattleik, Grill 66-deildinni, til skoðunar en leikurinn fór fram á miðvikudaginn í síðustu viku.

Málið snýst um hvort Akureyri hafi teflt fram meintum ólöglegum leikmanni í leiknum, sem endaði með jafntefli 20:20. Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, staðfesti við mbl.is í dag að sambandið væri að skoða málið áður en tekin verður ákvörðun hvort það verði tekið lengra.

Leikmaðurinn sem um ræðir er Arnar Jón Agnarsson, sem var á leikskýrslu Akureyrar í leiknum. Þegar leikurinn er hins vegar skoðaður á heimsíðu HSÍ er Arnar hvergi að finna, og raunar ekki heldur á leikmannalista Akureyrar. Þess má geta að hann skoraði ekki í leiknum, en var sem fyrr segir á skýrslu.

Róbert segir að engin kæra hafi borist vegna málsins, en það hafi verið tekið til skoðunar innanhúss þegar úrslit leiksins voru færð inn á kerfi HSÍ.

„Í öllum svona tilvikum þá eru það við sem sjáum ef leikmenn eru ekki á leikmannaskrá eða skráðir í viðkomandi félög. Þá eru það við sem tilkynnum þetta til mótanefndar,“ segir Róbert Geir.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun hvort málinu verði vísað áfram þar sem endanleg ákvörðun yrði tekin um málið, en niðurstöðu ætti að vænta í vikunni. Svo gæti farið að Akureyri yrði dæmdur ósigur í leiknum, en liðin eru jöfn í efstu tveimur sætum deildarinnar eftir þennan leik.

Arnar Jón hefur leikið með KR, Stjörnunni, FH, Fylki og Haukum hér heima en einnig í Noregi og Þýskalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert