Sannfærður um að það detti sigrar í hús

Gunnar Gunnarsson, þjálfari Víkings.
Gunnar Gunnarsson, þjálfari Víkings. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta virtist vera að fjara frá okkur á tímabili í seinni hálfleik og þess vegna var ótrúlega sterkt hjá strákunum að koma til baka í lokin og fá eitt stig sem við áttum skilið, það hefði verið fúlt að fara héðan tómhentir,“ sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari Víkings, eftir 27:27 jafntefli gegn Stjörnunni í 6. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld.

Stjarnan var fjórum mörkum yfir í TM Höllinni þegar fimm mínútur voru eftir en nýliðarnir gáfust aldrei upp og uppskáru að lokum jöfnunarmark á lokasekúndunni og Gunnar hrósaði karakternum í leikmannahópnum.

„Við byrjum leikinn vel og erum 9:6 yfir áður en þetta dettur niður og við skorum ekki mark síðustu átta mínúturnar í fyrri hálfleik. Þeir halda svo þessari 3-4 marka forystu í seinni hálfleik og það hefði verið auðvelt að brotna miðað við hvernig þetta hefur verið hjá okkur. Þetta hafa verið erfiðir leikir og það er erfitt að fara í leik eftir leik án þess að fá eitthvað úr þeim þannig að strákarnir eru búnir að leggja hart að sér, æfa vel og þeir eru staðráðnir í að standa sig.“

Gunnar var ósáttur með sóknarleik liðsins í síðasta leik þegar Víkingi var skellt 36:23 af FH en hann var talsvert ánægðari í kvöld.

„Sóknarleikurinn skánaði allverulega frá síðasta leik og í fyrri hálfleik eru við bara með einhverja fjóra tæknifeila en ekki 14 eins og gegn FH. Svo fáum við góða markvörslu í byrjun, þetta virtist nú bara ætla vera markalaust þarna eftir einhverjar nokkrar mínútur. Ég er hrikalega ánægður að menn skyldu landa einu stigi.“

„Nú höldum við bara áfram og förum í hvern leik vitandi það að við eigum möguleika á að vinna. Menn halda áfram að leggja mikið á sig, við æfum vel og undirbúum okkur fyrir hvern leik. Ég er sannfærður um að það detti sigrar í hús líka.“

Egidijus Mikalonis var markahæstur í kvöld með 10 mörk fyrir Víkinga og skoraði einmitt jöfnunarmarkið dramatíska og var Gunnar hæstánægður með framlag skyttunnar, sérstaklega eftir síðasta leik.

„Hann er mjög öflug skytta og öflugur varnarmaður, þegar hann er í gír þá er hann hrikalega mikilvægur. Hann var ekki með í síðasta leik eins og hann var í kvöld þannig að hann skuldaði aðeins og borgaði svo sannarlega til baka í dag,“ sagði Gunnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert