Hugsum bara um næsta leik

Stefán Arnarson bendir á að nóg eftir af mótinu.
Stefán Arnarson bendir á að nóg eftir af mótinu. Eggert Jóhannesson

„Það var margt mjög gott en samt eitt og annað sem við getum bætt,“ sagði Stefán Arnarson þjálfari Fram eftir 33:30-sigur á ÍBV í kvöld.

„Við spilum mjög hraðan leik og ÍBV spilar mjög hratt, þá koma bara tapaðir boltar,“ sagði Stefán, en Fram tapaði boltanum 14 sinnum samkvæmt mbl.is. „Í þessum leik töpuðum við of mörgum boltum, okkur vantaði aga og það er eitt af þessu sem ég var ekki nógu ánægður með, en eins og ég sagði þá er ég ánægður með margt.“

Fram komst með sigrinum fyrir ofan ÍBV og er einu stigi á eftir Val sem er á toppi deildarinnar með níu stig.

„Okkar markmið eru klár, það er alltaf bara næsti leikur. Í dag er 19. október nákvæmleg og þetta er langt mót. Því er yfirleitt best að hugsa bara um næsta leik og skoða hvernig staðan verður í mars eða apríl.“

Þórey Rósa Stefánsdóttir var markahæst Framkvenna með 10 mörk, en Ragnheiður Júlíusdóttir var næst með átta mörk.

Guðrún Ósk Maríasdóttir varði 17 skot í marki Fram og var mjög öflug í byrjun leiks.

„Guðrún stóð sig vel í fyrri hálfleik og varði 13 skot. Hú datt aðeins niður í seinni hálfleik þegar vörnin var ekki nógu góð og það spilar að sjálfsögðu alltaf saman, vörn og markvarsla. Þetta dugði til sigurs í kvöld og ég er ánægður með það,“ sagði Stefán í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert