Sögunni um Aron og Barcelona að ljúka

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sögunni endalausu í kringum Aron Pálmarsson, landsliðsmann í handknattleik, er að ljúka og verður hann orðinn leikmaður Barcelona á allra næstu dögum.

Þetta er fullyrt í spænskum fjölmiðlum í kvöld, en sagt að Barcelona muni ekki gera kaupin opinber fyrr en pappírsvinnan er klár milli ungverska og spænska handknattleikssambandsins annars vegar og Evrópska handknattleiksambandsins hins vegar.

Miðillinn Mundo Deportivo greinir frá því sem Morgunblaðið hefur áður sagt frá að Barcelona greiði eina milljón evra fyrir Aron. Hann kemur frá Veszprém í Ungverjalandi, en hann hefur ekki verið inni í myndinni hjá félaginu á þessu tímabili eftir ósætti í byrjun leiktíðar.

Aron gerir fjögurra ára samning við Barcelona og getur líklega spilað sinn fyrsta leik með liðinu 1. nóvember gegn Cangas í spænsku 1. deildinni. Aron er einnig löglegur í Meistaradeildinni frá og með mánaðamótum og næsti mótherji Börsunga þar er HC Zagreb.

Aron gekk í raðir Veszprém árið 2015 eftir að hafa verið sex ár hjá Kiel í Þýskalandi þar sem hann varð meðal annars tvívegis Evrópumeistari og fimm sinnum Þýskalandsmeistari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert