Arnór orðinn markahæstur í deildinni

Arnór Þór Gunnarsson er markahæsti leikmaður þýsku B-deildarinnar í handbolta …
Arnór Þór Gunnarsson er markahæsti leikmaður þýsku B-deildarinnar í handbolta karla. Ljósmynd/Robert Spasovski

Arnór Þór Gunnarsson er orðinn markahæsti leikmaður þýsku B-deildarinnar í handbolta karla eftir að hafa skorað sjö mörk í naumum 25:24-sigri Bergischer í tíundu umferð deildarinnar í kvöld. Bergischer trónir taplaust á toppi deildarinnar með 20 stig eftir þennan sigur.

Arnór Þór hefur nú skorað 80 mörk í fyrstu tíu deildarleikjum Bergischer á yfirstandandi leiktíð, en hann hefur skorað fjórum mörkum meira en næsti maður á listanum yfir markahæstu leikmenn deildarinnar. 

Fannar Þór Friðgeirsson og félagar hans hjá Hamm unnu stórsigur, 38:29, þegar liðið mætti Rúnari Sigtryggssyni og lærisveinum hans hjá Balingen. Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði eitt mark fyrir Balingen, en Oddur Gretarsson komst ekki á blað hjá liðinu. 

Úrslitin eru nokkuð óvænt þar sem Balingen er í fjórða sæti deildarinnar með 15 stig á meðan Hamm hefur tíu stig eftir þennan sigur. Hamm lyfti sér upp í tíunda sæti deildarinnar með þessum sigri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert